Spá formannsslögum á víxl

Þingmennirnir Össur Skarphéðinsson og Karl Garðarsson.
Þingmennirnir Össur Skarphéðinsson og Karl Garðarsson. Ljósmyndir/Althingi.is

Formannsslagur er framundan í Framsóknarflokknum að mati Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Þar verði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins og forsætisráðherra, hins vegar fjarri góðu gamni og slagurinn verða á milli Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns Framsóknarflokksins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherr, annars vegar og Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra hins vegar.

„Sigmundur er forsætisráðherra sem upplifir sig í „bunker“ eða herkví. Líklega hefur aldrei setið jafn hörundssár forsætisráðherra og ósjálfrátt kemur saga H.C. Andersen um prinsessuna á bauninni upp í hugann,“ segir Össur meðal annars í pistli á Facebook-síðu sinni í dag og telur stöðu Sigmundar hafa veikst frá kosningasigrinum 2013. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, bregst við skrifum Össurar á vefsíðu sinni og setur fram eigin vangaveltur þess efnis að ólga sé innan Samfylkingarinnar og að lagt sé að Össuri að fara í formannsslag við Árna Pál Árnason, formann flokksins.

Hins vegar lýkur grein Karls á eftirfarandi orðum: „Aðeins eitt að lokum. Það er álíka mikið hæft í þessari grein og hugleiðingum Össarar Skarphéðinssonar um ólgu innan Framsóknarflokksins sem geti leitt til formannsskipta. Þessi grein er hugarburður minn, rétt eins og innantómt hjal Össurar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert