„Tilfinningin er ansi góð“

MR-ingar fagna sigrinum.
MR-ingar fagna sigrinum. Skjáskot af vef RÚV

„Tilfinningin er ansi góð og við erum að uppskera eftir mikla vinnu,“ segir Jón Krist­inn Ein­ars­son, fyr­irliði keppn­isliðs Menntaskólans í Reykjavík í Gettu betur, en liðið fór með sigur af hólmi í úrslitaviðureigninni í kvöld gegn Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. 

MR sigraði FG með 41 stig­um gegn 18, en þetta er í nítjánda skipti sem skólinn vinnur keppnina. Jón Kristinn segir liðið alsælt með það að halda uppi heiðri skólans, en ásamt honum skipa þau Atli Freyr Þorvaldsson og Kristín Káradóttir liðið. 

Aðspurður um það hvernig liðinu hafi tekist að sigra keppnina svo örugglega svarar Jón Kristinn af hógværð. „Við ætluðum bara að mæta og gera okkar besta og það gekk eftir.

Jón Kristinn segir liðið hafa fundið fyrir stressi fyrir keppnina, en þegar komið hafi verið í Háskólabíó hafi það horfið. „Þá verður maður bara að reyna að svara spurningum rétt eins og maður hefur gert oft áður.

Munu fagna rækilega í kvöld

„Við byrjuðum að æfa saman síðasta sumar, en höfum öll verið í þessu áður. Nú tekur við ákveðið tómarúm þar sem maður veit ekki hvað maður á að gera við tímann sinn,“ segir Jón Kristinn, en bætir við að liðið muni þó fagna rækilega í kvöld. 

„Við förum og fögnum með FG liðinu, dómurunum og þeim sem koma að keppninni. Það fagna allir saman enda er þetta bara leikur og það gera allir sér grein fyrir því,“ segir hann.

Fóru í sund og út að borða

Aðspurður um það hvernig liðið hafi undirbúið sig í dag segir Jón Kristinn þau hafa farið í sund í sundlaug Seltjarnarness og svo út að borða á Brooklyn bar í Austurstræti. Þá hafi þau hlustað á tónlist og slakað á fyrir úrslitaviðureignina.

En hvað tekur við eftir Gettu betur? „Við erum að halda innanskólaspurningakeppnina í MR sem er að klárast núna. Það verður svona „rebound“ úr þessu öllu saman,“ segir Jón Kristinn.

MR langsigursælastur í Gettu Betur

Þetta var þrítug­asta úr­slitar­viður­eign Gettu Bet­ur en 29 fram­halds­skól­ar tóku þátt í keppn­inni í ár. Eins og fram kom er þetta í tutt­ug­asta skiptið sem MR sigr­ar keppn­ina en í fyrsta skipti sem FG kemst í úr­slitaviður­eign­ina. Í liði FG eru þau Tóm­as Geir Howser Harðar­son, Jara Kjart­ans­dótt­ir og Helga Mar­grét Hösk­ulds­dótt­ir.

Alls hafa níu skól­ar sigrað í Gettu bet­ur. Mennta­skól­inn í Reykja­vík er lang­sig­ur­sæl­ast­ur, næst á eft­ir kem­ur Mennta­skól­inn á Ak­ur­eyri með þrjá sigra. Borg­ar­holts­skóli hef­ur einu sinni unnið keppn­ina. 

Gettu betur er einn af elstu þáttunum á dagskrá sjónvarps. Þátturinn hóf göngu sína árið 1986 og var þá aðeins hálftími. Frá 1991 hefur þátturinn verið nokkurn veginn með sama sniði. Björn Bragi Arnarsson er spyrill og dómarar og spurningahöfundar eru þau Margrét Erla Maack og Steinþór Helgi Arnsteinsson ásamt Birni Teitssyni. 

Frétt mbl.is: MR sigraði í Gettu betur

Lið FG.
Lið FG. Skjáskot af vef RÚV
Skjáskot af vef Rúv
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert