Ekki verður betur séð en að rekstrarfyrirkomulagið opinber hlutafélög sé afar óhagstætt fyrir ríkið enda felur það í sér að ríkið beri ábyrgð á rekstri slíkra félaga en hafi hins vegar enga aðkomu að stjórn þeirra. Þetta segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, í samtali við mbl.is.
„Það segir sig sjálft að ef ríkið á fyrirtæki verður að tryggja hagsmuni ríkisins. Það gengur ekki að ríkið hafi enga aðkomu að rekstrinum en beri engu að síður ábyrgð á honum,“ segir Vigdís. Opinbert hlutafélag sé eins konar millistig á milli einkafyrirtækis og ríkisfyrirtækis. Slík félög séu rekin með hliðstæðum hætti og einkafyrirtæki en í skjóli ríkisins og séu um leið gjarnan í samkeppni við eiginleg einkafyrirtæki sem þurfa sjálf að bera ábyrgð á eigin rekstri.
„Þetta er millistig sem er mjög óheppilegt fyrir ríkið að standa að. Það er alveg sama hvernig reksturinn gengur, ríkið er alltaf í ábyrgð. Fari allt á versta veg í slíkum rekstri gæti það valdið ríkinu miklum skaða án þess að ríkið geti á nokkurn hátt gripið inn í. Og það er algerlega óásættanlegt,“ segir Vigdís. Síðan sé meðal annars borið við upplýsingaleynd hjá opinberum hlutafélögum þegar óskað sé eftir upplýsingum. Til að mynda af þingmönnum.
Með þessu rekstrarfyrirkomulagi megi segja að ætlunin hafi verið að koma slíkum félögum í eigu ríkisins armslengd frá því. Einhverjir hafi vafalaust hugsað fyrirkomulagið sem fyrsta skref í þá átt að selja þau einkaaðilum. „Eftir á að hyggja hefði verið hreinlegast að einfaldlega selja þesi félög og koma rekstri þeirra í hendur einkaaðilum frekar en að vera með þetta millistig sem er hvorki einkarekstur né ríkisrekstur en engu að síður að fullu á ábyrgð ríkisins.“