„Ekki kúvending á utanríkisstefnu“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það hafa verið augljóst eftir síðustu kosningar að ríkisstjórnarflokkarnir vildu ekki að Ísland gengi inn í ESB. Þetta segir Bjarni í Kastljósi í kvöld.

Spyrill Kastljóssins spurði Bjarna hvers vegna það sé ekki Alþingis að ljúka málinu. „Síðasta ríkisstjórn stöðvaði viðræðurnar við ESB í ársbyrjun 2013 eftir erfitt kjörtímabil og við þessu búi tók ný ríkisstjórn með skýra stefnu um að ganga ekki inn í ESB. Flokkarnir sem vildu inn í ESB guldu afhroð. Það var því augljóst að ríkisstjórnarflokkarnir vildu ekki að Ísland gengi inn í ESB,“ segir Bjarni.

Hann segist hafa opnað á þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir síðustu kosningar. „Það er sérstök skylda á ríkisstjórn að ef á að kúvenda eða breyta utanríkisstefnu að leggja það fyrir þingið. Við byggjum hins vegar okkar utanríkisstefnu á EES-samningnum og við ætlum ekki að breyta því. Það er ekki stefna Alþingis að ganga inn í Evrópusambandið,“ bætir Bjarni við.

Segir hann þá þingsályktunartillöguna sem samþykkt var í tíð síðustu ríkisstjórnar hafa verið fulla af fyrirvörum.

Í lagi að halda ekki áfram en ekki í lagi að spilla ferlinu

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að flokkurinn hafi ekki gert ágreining úr því að ný ríkisstjórn hafi ekki haldið áfram með umsóknarferlið. „Við höfum hins vegar ekki viljað fallast á að umsóknin verði dregin tilbaka og ferlinu spillt,“ segir Árni Páll.

„Ríkisstjórnin reyndi að koma stefnubreytingu í gegnum þingið í fyrra en það tókst ekki. Hún boðaði málið á nýjan leik en ekki var staðið við það. Þetta er fordæmalaus tilraun til þess að telja Evrópusambandinu trú um að nú sé búið að draga umsóknina tilbaka. Ég hitti Bjarna í morgun og hann nefndi þetta ekki einu orði. Þetta er léleg framganga í lýðræðisríki,“ segir Árni Páll og bætir við: 

„Þessi ákvörðun er niðurstaða í kaffispjalli nokkurra manna um að þeir vilji ekki ganga í ESB. Þetta hefur ekkert að gera með umsóknina. Þingið veitti umsókninni umboð, en þingið hefur ekki veitt umboð til þess að draga hana tilbaka.“

Þingið aldrei ályktað um að Ísland gangi í ESB

Bjarni sagði þingið aldrei hafa ákveðið að Ísland ætti að ganga inn í ESB. Varðandi það hvort ekki sé rétt að þingið taki ákvörðun sem þessa, segir hann ríkisstjórnina sitja með stuðningi þingsins, að hér ríki þingræði.

„Það sjá allir hvaða skrípaleikur og hrossakaup voru í gangi á síðasta kjörtímabili. Það er ekki hægt að túlka niðurstöðu kosninganna öðruvísi en að þeir sem vildu inn í ESB fengu ekki áheyrn hjá þjóðinni. Ríkisstjórnin er að fara að vilja þjóðarinnar. við getum ekki búið við millibilsástand í utanríkismálum. ESB hefur kallað eftir þessu og eðlilegt að við verðum við því og Ísland er því ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki. 

Árni Páll segir Bjarna hafa lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna fyrir síðustu kosningar. „Það var skuldbinding sem gefin var í aðdraganda síðustu kosninga, og ESB-málið var því ekki mál í síðustu kosningum. Eftir stendur þá núna að með miklum loftfimleikum sé flokkurinn að koma sér undan fyrirheitunum um að leggja þetta fyrir þingið. Þeir reyna að breyta staðreyndum um umsóknina með nýrri tegund af ályktun.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert