„Ekki kúvending á utanríkisstefnu“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ir það hafa verið aug­ljóst eft­ir síðustu kosn­ing­ar að rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir vildu ekki að Ísland gengi inn í ESB. Þetta seg­ir Bjarni í Kast­ljósi í kvöld.

Spyr­ill Kast­ljóss­ins spurði Bjarna hvers vegna það sé ekki Alþing­is að ljúka mál­inu. „Síðasta rík­is­stjórn stöðvaði viðræðurn­ar við ESB í árs­byrj­un 2013 eft­ir erfitt kjör­tíma­bil og við þessu búi tók ný rík­is­stjórn með skýra stefnu um að ganga ekki inn í ESB. Flokk­arn­ir sem vildu inn í ESB guldu af­hroð. Það var því aug­ljóst að rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir vildu ekki að Ísland gengi inn í ESB,“ seg­ir Bjarni.

Hann seg­ist hafa opnað á þjóðar­at­kvæðagreiðslu fyr­ir síðustu kosn­ing­ar. „Það er sér­stök skylda á rík­is­stjórn að ef á að kúvenda eða breyta ut­an­rík­is­stefnu að leggja það fyr­ir þingið. Við byggj­um hins veg­ar okk­ar ut­an­rík­is­stefnu á EES-samn­ingn­um og við ætl­um ekki að breyta því. Það er ekki stefna Alþing­is að ganga inn í Evr­ópu­sam­bandið,“ bæt­ir Bjarni við.

Seg­ir hann þá þings­álykt­un­ar­til­lög­una sem samþykkt var í tíð síðustu rík­is­stjórn­ar hafa verið fulla af fyr­ir­vör­um.

Í lagi að halda ekki áfram en ekki í lagi að spilla ferl­inu

Árni Páll Árna­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, seg­ir að flokk­ur­inn hafi ekki gert ágrein­ing úr því að ný rík­is­stjórn hafi ekki haldið áfram með um­sókn­ar­ferlið. „Við höf­um hins veg­ar ekki viljað fall­ast á að um­sókn­in verði dreg­in til­baka og ferl­inu spillt,“ seg­ir Árni Páll.

„Rík­is­stjórn­in reyndi að koma stefnu­breyt­ingu í gegn­um þingið í fyrra en það tókst ekki. Hún boðaði málið á nýj­an leik en ekki var staðið við það. Þetta er for­dæma­laus til­raun til þess að telja Evr­ópu­sam­band­inu trú um að nú sé búið að draga um­sókn­ina til­baka. Ég hitti Bjarna í morg­un og hann nefndi þetta ekki einu orði. Þetta er lé­leg fram­ganga í lýðræðis­ríki,“ seg­ir Árni Páll og bæt­ir við: 

„Þessi ákvörðun er niðurstaða í kaffispjalli nokk­urra manna um að þeir vilji ekki ganga í ESB. Þetta hef­ur ekk­ert að gera með um­sókn­ina. Þingið veitti um­sókn­inni umboð, en þingið hef­ur ekki veitt umboð til þess að draga hana til­baka.“

Þingið aldrei ályktað um að Ísland gangi í ESB

Bjarni sagði þingið aldrei hafa ákveðið að Ísland ætti að ganga inn í ESB. Varðandi það hvort ekki sé rétt að þingið taki ákvörðun sem þessa, seg­ir hann rík­is­stjórn­ina sitja með stuðningi þings­ins, að hér ríki þing­ræði.

„Það sjá all­ir hvaða skrípaleik­ur og hrossa­kaup voru í gangi á síðasta kjör­tíma­bili. Það er ekki hægt að túlka niður­stöðu kosn­ing­anna öðru­vísi en að þeir sem vildu inn í ESB fengu ekki áheyrn hjá þjóðinni. Rík­is­stjórn­in er að fara að vilja þjóðar­inn­ar. við get­um ekki búið við milli­bils­ástand í ut­an­rík­is­mál­um. ESB hef­ur kallað eft­ir þessu og eðli­legt að við verðum við því og Ísland er því ekki leng­ur skil­greint sem um­sókn­ar­ríki. 

Árni Páll seg­ir Bjarna hafa lofað þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fram­hald viðræðna fyr­ir síðustu kosn­ing­ar. „Það var skuld­bind­ing sem gef­in var í aðdrag­anda síðustu kosn­inga, og ESB-málið var því ekki mál í síðustu kosn­ing­um. Eft­ir stend­ur þá núna að með mikl­um loft­fim­leik­um sé flokk­ur­inn að koma sér und­an fyr­ir­heit­un­um um að leggja þetta fyr­ir þingið. Þeir reyna að breyta staðreynd­um um um­sókn­ina með nýrri teg­und af álykt­un.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árna­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/Á​rni Sæ­berg
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert