„Fólk hljóp bara frá kvöldmatnum“

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata.

Þetta er einhver mesta aðför að lýðræðinu sem átt hefur sér stað síðan við fengum okkar fullveldi,“ segir Birgitta Jónsdóttir formaður Pírata um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka ekki upp aðild­ar­viðræður við ESB.

„Það er vafaatriði sem þarf að skera úr sem fyrst og ég geri ráð fyrir því að það verði gert á fundi þingflokksformanna á morgun, hvort að ríkisstjórnin hafi eitthvað umboð til að laumast út úr landi með þetta bréf. Um er að ræða þingsályktun sem var samþykkt á Alþingi og er ekki hægt að sniðganga nema með því að Alþingi samþykki að hún sé ekki lengur gildi,“ segir Birgitta.

„Það sem veldur mestum óróa hjá mér, alveg óháð því um hvað málið snýst, er að þarna er verið að sniðganga þingsályktun, þingið og sjálfan þjóðarviljann. Þetta hlýtur í raun og veru að setja allar þingsályktanir um alþjóðasamninga í uppnám, þar á meðal og til dæmis ályktunina um að ganga í NATO.“

Trúnaðarbrestur við forseta Alþingis

„Ég vona bara að niðurstaðan verði að þetta sé umboðslaus gjörningur og þá þarf væntanlega að koma einhvers konar yfirlýsing frá þingheimi þar að lútandi, þar sem það kemur skýrt fram að þetta sé gert án nokkurs umboðs. Annars er lýðræðið í mikilli hættu og það er það sem veldur mér miklum áhyggjum. Ég er eiginlega bara í áfalli.“

Birgitta telur það óþarft að kalla til sérfróða lögfræðinga til að rýna í málið. „Þetta er alveg klippt og skorið. Það þarf ekkert að fá neina sérfræðinga. Að sjálfsögðu verður athyglisvert að sjá hvað kemur út úr þessum fundi þingflokksformanna á morgun.“

Hún segir alvarlegan trúnað hafa brostið á milli hennar og forseta Alþingis, Einar K. Guðfinnssonar. „Ég hef í tvígang spurt forseta þingsins hvort hann ætli ekki að ganga á eftir því að við fáum upplýsingar um hvenær þingsályktun utanríkisráðherra, um að slíta viðræðunum, muni vera lögð fram, því ljóst er að slíkt myndi setja bæði þing og þjóð í uppnám auk þess að riðla til þingstörfum.“

„Hefði getað fetað ný skref“

„Hann sagðist myndu gera það en nú kemur í ljós að hann vissi af þessu þegar þingflokksfundir stjórnarliða voru haldnir í dag. Sem forseti allra þingmanna hefði hann að sjálfsögðu átt að láta þingmenn stjórnarandstöðunnar vita samstundis svo maður hefði ekki þurft að frétta af þessu í gegnum fjölmiðla klukkan sex. Ég upplifi algjört trúnaðarbrot við forseta þingsins og óska skýringa á þessu.“

Telurðu að betur færi á því ef forseti þingsins kæmi ekki úr röðum þingmanna?

„Eins og er þá verður að hafa forseta þingsins sem þingmann en það væri betra ef það væri þingmaður úr minnihlutanum. Það sýnist mér. Frægt varð þegar ég sagði að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir væri ekki minn forseti, þegar ég fann fyrir því að hún var einatt að ganga erinda ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar hef ég hlaðið Einar lofi fyrir að vera forseti alls þingsins frekar en bara ríkisstjórnarinnar, en mér hefur fundist það vera að breytast undanfarið. Mér finnst það mjög leiðinlegt því hann hefði getað fetað ný skref í þessa átt.“

„Alvarleg aðför að þingræðinu“

Birgitta segir engan úr röðum ríkisstjórnarinnar hafa haft samband við stjórnarandstöðuna. „Mér finnst þetta mjög alvarleg aðför að lýðræðinu og þingræðinu. Þá finnst mér mjög skrýtið að Sjálfstæðisflokkurinn láti draga sig út í þetta. Það er enginn annar flokkur sem talar af eins mikilli virðingu og íhaldssemi fyrir störfum þingsins og mikilvægi þess að halda reglu og aga á þeim störfum.“

Ákvörðunin á eftir að reynast ríkisstjórninni dýrkeypt, að sögn Birgittu. „Maður þarf ekki annað en að horfa yfir samskiptamiðlana. Ég fór á mótmælin áðan og þar voru ótrúlega margir miðað við að þau voru ekki skipulögð fyrr en klukkan sjö. Fólk hljóp bara frá kvöldmatnum sínum til að mótmæla.“

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og Birgitta Jónsdóttir.
Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og Birgitta Jónsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert