Verð á sjónvörpum í verslunum Elko hér á landi er í einhverjum tilfellum næstum tvöfalt hærra en á sömu sjónvörpum í Noregi.
Viðmiðunarverð er það sem norska raftækjabúðin Elkjøp birtir á vefsíðu sinni, en Elko á Íslandi er með heildsölusamning við Elkjøp í Noregi.
Sem dæmi um þetta má nefna að 55 tommu Samsung þrívíddar- og snjallsjónvarp kostar 319.995 kr. í Elko á sama tíma og uppgefið verð í Noregi er 9.995 norskar krónur, eða sem nemur rúmum 172 þúsund krónum. Norska verðið er þannig aðeins 54 prósent af því íslenska, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.