Byrjað var að dreifa 52.000 sólmyrkvagleraugum í grunnskóla á landinu í dag fyrir deildarmyrkvann sem verður á föstudag eftir viku. Það verður mesti sólmyrkvi sem sést hefur frá Íslandi í 61 ár. Krakkarnir sem tóku við gleraugunum í Rimaskóla voru spennt en einnig örlítið hrædd við myrkvann.
Það eru Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness, Stjörnufræðivefurinn og Hótel Rangá sem standa að gjöfinni en allir nemendur og kennarar í grunnskólum á Íslandi fá sólmyrkvagleraugu frá þeim til þess að þeir geti notið myrkvans sem best. Einnig verður blindum nemendum fært sérstakt fræðsluefni um sólmyrkva.
Að morgni föstudagsins 20. mars mun tunglið þekja allt að 99,4% af skífu sólarinnar á Austurlandi en um 97,5% í Reykjavík. Austan við landið verður svo hægt að sjá almyrkva á sólu, að því er kemur fram á Stjörnufræðivefnum.