„Sýnir veikleika ríkisstjórnarinnar“

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir framgöngu ríkisstjórnarinnar sýna veikleika …
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir framgöngu ríkisstjórnarinnar sýna veikleika hennar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi framganga sýnir veikleika ríkisstjórnarinnar í málinu og ótta hennar við viðbrögð þings jafnt sem þjóðar,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka ekki upp aðildarviðræður við ESB. Hann segir að stjórnarandstaðan muni hafa samband við forystu ESB til að upplýsa um aðdraganda ákvörðunarinnar.

„Við munum auðvitað þurfa að upplýsa Evrópusambandið um að ríkisstjórnin hafi, með þessari yfirlýsingu í dag, gert tilraun til að afvegaleiða Evrópusambandið og halda fram röngum staðreyndum, þar sem umboð Alþingis til ríkisstjórnar, til að sækja um aðild að sambandinu, hefur aldrei verið afturkallað með lýðræðislegum hætti,“ segir Árni Páll.

„Segir ýmislegt um það bakland sem hún telur sig hafa“

„Þingsályktunin stendur enn. Það er mikilvægt að Evrópusambandið átti sig á því með hvaða hætti hér var farið gegn þeim grundvallarreglum sem alltaf hafa verið virtar hjá vestrænum lýðræðisríkjum í meiriháttar utanríkismálum, að umboð þjóðþings gildi þangað til það er afturkallað, með skýrum hætti.

Þetta er mjög óskynsamleg ákvörðun og ég á ekki von á að hún njóti stuðnings þjóðarinnar. Ég átta mig ekki á hugsanaganginum að baki en hann er augljós vitnisburður um að ríkisstjórnin treysti sér alls ekki til að gera þetta fyrir opnum tjöldum. Það hlýtur að segja ýmislegt um það bakland sem hún telur sig hafa í málinu.“

Össur Skarphéðinsson uppfærði stöðu sína á Facebook í kvöld og fjallaði þar um málið. Segir hann að ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé líklega versta atlagan að fullveldi Alþingis í lýðveldissögunni.

„Ráðherrar Íslands gera atlögu að fullveldi Alþingis, þeir brjóta lög, og hafa ekki kjark til að leggja tillögu um slit fyrir þingið. Þeir vonast til þess, að frammi fyrir orðnum hlut, þá gefist þjóðin upp. En líklega eru þeir ekki búnir að bíta úr nálinni með loforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslendingar eru búnir að fá nóg af verkum í skjóli næturs.“

Össur Skarphéðinsson telur ákvörðun ríkisstjórnarinnar vera verstu atlöguna að fullveldi …
Össur Skarphéðinsson telur ákvörðun ríkisstjórnarinnar vera verstu atlöguna að fullveldi Alþingis í lýðveldissögunni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert