„Maður hefði haldið að hann ætti að vita manna best hvernig fólk er sett saman,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um ummæli Kára Stefánssonar í hlaðvarpsþættinum Hip hop og pólitík á Vísi í gær.
Í umræðum um áfengisfrumvarpið segir annar gestur þáttarins, Dóri DNA, að hann hafi heyrt sögur um að lögfræðingar Haga hafi samið áfengisfrumvarpið sem Vilhjálmur er flutningsmaður fyrir á Alþingi. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist ekki trúa því, enda telji hann frumvarpið afar heimskulega sett saman.
Kári bætir svo við: „Ég held að Vilhjálmur Árnason, sem er maður þannig samansettur að Guð hefur ekki verið mjög örlátur þegar hann bjó hann til, að hann hefur sett þetta saman og enginn annar.“
Vilhjálmur segir slík ummæli lýsa Kára sjálfum betur en Vilhjálmi. „Ég ætla ekki að banna honum að hafa skoðun á mér eða einhverju öðru. Ég bara hálfvorkenni manninum að tala svona. Mér finnst þessi ummæli dæma hann frekar en mig.“