„Ég er í fyrsta lagi efnislega á móti þessu en það ætti ekki að koma neinum á óvart. En að auki tel ég að formlega sé hér farið ranglega að. Ég tel að þingsályktun gildi fram yfir kjörtímabil en ekki bara út eitt kjörtímabil,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka ekki upp aðildarviðræður við ESB.
„Ef menn vilja afturkalla þingsályktunina þá á að fara í gegnum þingið með það. Sömuleiðis heyrir málið undir utanríkismálanefnd samkvæmt lögum. Nefndin var að engu leyti höfð með í ráðum og hún var ekki upplýst um þessar ráðagerðir. Það kann að vera að hér sé ekki um að ræða breytingu á afstöðu ríkisstjórnar en samt sem áður er þetta aðgerð sem á sér ekki fordæmi,“ segir Vilhjálmur.
„Þess vegna á að taka þetta í gegnum utanríkismálanefnd, þann vettvang sem er í þingsköpum ætlaður til að fara með mál sem þessi. Í lögum stendur að öll meiriháttar utanríkismál beri að fara undir nefndina og ég tel þetta vera meiriháttar utanríkismál.“
Vilhjálmur segir þessa aðgerð fordæmalausa í sögu þingsins. „Ég stóð bara andspænis þessu með korters fyrirvara, korteri áður en bréfið var lagt fram. Í gærmorgun var fundur í utanríkismálanefnd, þegar ljóst var hvað ætti að gera, en samt var þetta ekki tekið til umræðu þar.“
Hann telur aðgerðina ekki vera til ávinnings fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Eini flokkurinn sem hefur ávinning af þessu er Framsóknarflokkurinn en hann er orðinn svo lítill að hann skiptir ekki máli. Þó hann hafi náð einhverju flugi í síðustu kosningum þá er ekki víst að hann nái því í þeim næstu, nema hann búi sér til eitthvert lýðskrumsmál.“
Aðspurður segir hann stöðu sína innan flokksins áfram trygga. „Meðan ég lifi þá ætla ég að berjast fyrir minni afstöðu. Ég á fullt af fylgismönnum og hef enga ástæðu til að ætla að ég verði rekinn úr flokknum. Ekki ætla ég heldur að hætta í honum.“
Vilhjálmur telur að þjóðin styðji ekki ákvörðun ríkisstjórnarinnar. „Ég held að þjóðin hafi vænst annarrar meðferðar, ellegar þá að málið lægi bara í salti, og það var í raun það sem ég var fyrir löngu búinn að sætta mig við. Að núverandi utanríkisráðherra og ráðandi öfl í flokknum myndu ekki vilja fara þessa leið. En þessu átti ég ekki von á.
Ég held að alþingi verði illa starfhæft. Það verður vandamálið. Ekki það að ég ætli í einhvern skæruhernað í þinginu en það eru aðrir sem munu gera það, heyrist mér á fulltrúum annarra flokka.“