„Engir kjánar Íslendingarnir“

Stuðningsmenn Evrópusambandsins funda á Austurvelli í fyrra.
Stuðningsmenn Evrópusambandsins funda á Austurvelli í fyrra. mbl.is/afp

Fréttin af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá í gær um að Íslendingar væru hættir samningaviðræðum við Evrópusambandið (ESB) hefur vakið viðbrögð í frönskum fjölmiðlum. 

Í blaðinu Le Figaro hafa 200 lesendur tjáð sig um fréttina. Eiga þeir það sameiginlegt að hrósa Íslendingum fyrir ákvörðun sína og gagnrýna ráðamenn í ESB. 

„Þeir eru engir kjánar, Íslendingarnir,“ segir einn. „Ég er ekki lengur Charlie, ég er Íslendingur,“ sagði annar og skírskotaði þar með til samúðaröldunnar sem reis í Frakklandi eftir fjöldamorðin í París fyrir röskum tveimur mánuðum.

„Þeir hafa brugðist hárrétt við, alveg skil ég þá í botn. Bravó,“ segir sá þriðji. „Hafi Brusselarnir einhvern kjark ættu þeir að fallast á þjóðaratkvæði í aðildarlöndunum 27 um hvort íbúar þeirra vilji áfram fóðra þetta vitfirringahæli,“ sagði greinilegur andstæðingur ESB-báknsins í Brussel.

„Loksins land þar sem menn eru klárir í kollinum. Bara ef önnur ríki gætu nýtt sér þetta sem innblástur,“ sagði lesandi og annar tók upp keflið: „Bravó Ísland, þeir skilja hætturnar sem ógnuðu þeim, kolkrabbann sem ætlaði að mergsjúga þá og gleypa. Að mínu viti er þetta rétt ákvörðun, mjög hugrökk, í nafni þess frelsis að ráða örlögum þjóðar sinnar sjálfir. Úff, þeir sluppu vel“.

En það voru ekki allir hrifnir þótt hinir séu margfalt miklu fleiri. „Ekki fallegt af þeim, það þarf að láta þá borga fyrir þetta dýrt í viðskiptum við ESB,“ sagði einn andvígur ákvörðun íslensku stjórnarinnar.

Islande: retrait de sa candidature à l'UE

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert