Þingflokkur jafnaðarmanna á Evrópuþinginu hefur sent frá sér ályktun þar sem ríkisstjórn Íslands er hvött til þess að standa við gefin loforð um þjóðaratkvæði um framhald umsóknarferlisins að Evrópusambandinu.
„Þingsályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 með tilmælum til ríkisstjórnarinnar um að senda umsókn um inngöngu í Evrópusambandið er enn í gildi. Umsóknarferli Íslands gekk vel á meðan á viðræðunum stóð og við hörmum það að þeim var ekki lokið þar sem landið hefði orðið mikilsverður aðili að sambandinu. Það er vitanlega ákvörðun íslensku þjóðarinnar hvort hún vill ganga í Evrópusambandið eða ekki,“ segir í ályktuninni.
Ennfremur segir að leita ætti eftir samþykki Alþingis, eins og gert hafi verið þegar þingsályktunin frá 2009 hafi verið samþykkt, ætli ríkisstjórnin að halda sig við þá ákvörðun að draga umsóknina til baka.