Fordæmalaust klúður í ESB-máli

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson. mbl.is/RAX

„Það er erfitt að finna nokkurt fordæmi fyrir því að svo illa hafi verið haldið á svo stóru máli,“ skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðu sína í tilefni af bréfi Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til framkvæmdastjórnar ESB. Málið muni hafa pólitískar afleiðingar.

Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag hyggst framkvæmdastjórn ESB greina bréf Gunnars Braga á næstu dögum og munu fulltrúar hennar svo tjá sig um efni þess.

Styrmir skrifar að í stað þess að leggja fram þingsályktunartillögu á ný eða að afturkalla umsóknina með einhliða yfirlýsingu sé „farið í undarlegan orðaleik, sem vissulega er hægt að túlka sem svo að aðildarumsóknin sé ekki lengur til staðar en þegar til sögunnar koma túlkanir ráðherranna tveggja, sem hér hafa verið nefndir verður myndin af þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar óskýr svo að ekki sé meira sagt“.

Ráðherrarnir eigi erfitt með að skýra málið

Styrmir telur málið hafa farið í nýjan farveg á síðustu vikum.

„Einhvern tímann á síðustu þremur vikum eða svo hefur orðið breyting á þeim farvegi sem þetta mál var í. Það hafa bersýnilega hafizt samskipti á milli íslenzka utanríkisráðuneytisins og höfuðstöðva ESB í Brussel sem hafa leitt til þessara undarlegu samskipta, sem kynnt voru í gær og ráðherrarnir eiga bersýnilega í vandræðum með að skýra.

Sennilega fæst ekki skýring á því fyrr en stækkunardeild ESB hefur „greint“ bréfið frá utanríkisráðherra og sagt frá niðurstöðu þeirrar greiningar.

En líklegast er að niðurstaða þeirrar greiningar hafi legið fyrir áður en bréfið var afhent.

Pólitískar afleiðingar þessa leiks eru eftirfarandi: Stjórnarandstaðan mun í krafti þingskaparlaga hefja enn harkalegra andóf gegn ríkisstjórninni, sem mun taka lengri tíma en afgreiðsla nýrrar þingsályktunartillögu hefði tekið.

Margir í hópi andstæðinga aðildar fyllast tortryggni í garð ríkisstjórnarinnar um hvað fyrir henni vaki en einhverjir í þeim röðum munu gera sér vonir um að málinu sé lokið,sem það augljóslega er ekki. Stjórnarflokkarnir munu eiga í vök að verjast gagnvart almenningi,“ skrifar Styrmir.

Grein hans má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert