„Við erum ekki að fara að herma eftir Elvis,“ segir Björgvin Halldórsson um tónleikasýninguna Elvis lifir, sem haldin verður í Hörpu 30. maí næstkomandi. „Við ætlum ekki í Las Vegas-búninginn.“
„Aldeilis ekki,“ bætir Bjarni Arason við en hann syngur líka í sýningunni. „Það er fullmannað í þeirri deild.“
„Markmiðið er að gera þetta af virðingu, bæði fyrir manninum, Elvis Presley, og þessari dásamlegu tónlist. Ekki má vanvirða Elvis, “ segir Björgvin.
Einmitt þess vegna ætla þremenningarnir að syngja lögin með sínu nefi. „Við hintum í karlinn en þykjumst ekki vera hann,“ segir þriðji aðalsöngvarinn, Páll Rósinkranz.
Sungin verða lög frá öllum ferli Elvis og félagarnir viðurkenna að ekki verði auðvelt að koma efnisskránni saman – af nægu sé að taka.
„Fólk kemur ekki bara á svona tónleika til að hlusta á góð lög, heldur ekki síður til að upplifa líf sitt gegnum þau,“ segir Bjarni og Björgvin tekur í sama streng. „Elvis sameinar kynslóðirnar og hvert lag á sér stað í minni tónleikagesta. Þetta verður eins og að fara á lifandi bíó.“
Það er engin tilviljun að Elvis er mikið sunginn í jarðarförum og brúðkaupum. „Og skilnuðum líka,“ laumar Bjarni að glettinn.
Hugmyndin er runnin undan rifjum tveggja Eyjapeyja, Bjarna Ólafs Guðmundssonar og Eiðs Arnarssonar, sem annast framkvæmd tónleikanna. „Þetta er vel til fundið hjá þeim félögum og gaman að gera þetta einmitt á þessu afmælisári. Það er óvíst að maður eigi eftir að gera þetta aftur,“ segir Björgvin.
Hann hefur unnið mikið með Bjarna og Páli gegnum tíðina en þeir hafa aldrei staðið þrír saman á sviði áður. „Það er virkilega gaman að gera þetta þrír saman,“ segir Björgvin.
Nánar er rætt við Björgvin, Bjarna og Pál í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.