Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hafnaði kröfu þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar um að Alþingi sendi Evrópusambandinu bréf um að þingsályktunartillaga um aðildarumsókn Íslands sé enn í gildi. Hann hafnaði einnig að halda þingfund vegna málsins í dag. Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður þingflokks Pírata, segist engin orð kunna til að lýsa vonbrigðum sínum.
„Hann reifaði meintan mun á því að skilgreina Ísland ekki lengur sem umsóknarríki og því að slíta aðildarviðræðunum sem er auðvitað bar orðhengilsháttur af augljósustu sort,“ segir Helgi Hrafn um fund þingflokksformanna með forseta Alþingis í morgun.
Formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna hafi verið skýrir á fundinum um að það leiki á vafi um hlutverk Alþingis í stjórnskipan landsins og ekki verði um alvarlegra málefni að fjalla á Alþingi nokkurn tímann. Þrátt fyrir það hafi forseti hafnað kröfu um að þingfundur verði haldinn í dag.
„Ég kann engin orð til að lýsa vonbrigðunum yfir því hvert við erum að fara,“ segir Helgi Hrafn.
Þingflokkar stjórnarandstöðunnar sitja nú á fundum en Helgi Hrafn segir að ekki sé skýrt hver næstu skref verða í málinu.