Fólk stærir sig af stuttum svefni

Snjallsímar, spjaldtölvur og önnur nútímatæki hafa breytt svefnvenjum Íslendinga.
Snjallsímar, spjaldtölvur og önnur nútímatæki hafa breytt svefnvenjum Íslendinga. Morgunblaðið/Ernir

„Rannsóknir sýna okkur að svefntíminn okkar er alltaf að styttast. Það er hættuleg þróun og við, sem sinnum meðferð og greiningu á svefnvandamálum, viljum koma þeim skilaboðum til almennings að gefa sér tíma í svefninn. Það er ekki gott að klípa af svefntímanum, til dæmis til að vakna klukkan sex og fara í ræktina. Fullorðnir þurfa sjö til átta tíma svefn og börn og unglingar enn meira.“

Þetta segir varaformaður Hins íslenska svefnfélags, Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum. Hún bendir á að meðalsvefntími Íslendinga hafi styst verulega síðustu áratugi og segir að það megi að miklu leyti rekja til raf- og snjallsímavæðingar.

„Öll þessi tækni sem á að auðvelda okkur lífið er að hafa mikil áhrif á svefnvenjur okkar. Kvöld eftir kvöld ætlar maður að fara að snemma að sofa en svo er maður farinn að flakka á milli á sjónvarpsstöðva eða að hanga á Facebook, og klukkan allt í einu orðin tólf eða eitt eftir miðnætti.“

Erfiðisvinna, bókalestur og átta tíma svefn

Mikið hefur breyst hvað þetta varðar síðan á miðri síðustu öld, að sögn Erlu. Lífsstíll fólk var þá að mestu annars eðlis. „Í kringum 1950 þegar fólk vann meiri erfiðisvinnu þá var þetta öðruvísi, þá fór fólk upp í rúm eftir góðan vinnudag og las kannski í bók áður en það fékk sinn átta tíma svefn,“ segir hún og bendir til hliðsjónar á niðurstöður rannsóknar landlæknisembættisins árið 2012.

„Fjórðungur Íslendinga sagðist þá sofa minna en sex tíma á sólarhring. Svo stuttur svefn hefur mjög skaðleg áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu auk þess sem hann eykur hreinlega hættu á slysum. Þannig er þessi þróun mjög hættuleg og við þurfum hvert og eitt að líta í eigin barm og vera meðvituð gagnvart öllu þessu áreiti sem fylgir nútímanum. Gott væri að gefa sér aðeins frí á kvöldin, slökkva á snjallsímanum, spjaldtölvunni og aðeins að gíra sig niður eftir daginn og gera sig tilbúinn í svefninn.“

Stuttur svefn tengdur dugnaði og atorku

Stuttur svefn hefur gjarnan verið tengdur dugnaði og atorku. Hver kannast ekki við sögur af þekktum þjóðarleiðtogum, ofurmennum og atorkufólki sem segist einungis sofa örfáar klukkustundir á sólarhring? Erla segir þessa tengingu vera miður góða og að rannsóknir sýni að ekki sé hægt að venja af sér nauðsynlegan svefntíma, án skaðlegra afleiðinga.

„Það er svolítið viðhorfið sem maður heyrir stundum og fólk stærir sig jafnvel af því að sofa stutt. Maður heyrir líka að fólk sem er mjög upptekið á daginn reyni að þjálfa sig upp í að geta bara sofið fimm til sex tíma og hefur þá ekki tíma til að sofa lengur. Rannsóknirnar tala hins vegar sínu máli og með stuttum svefni er maður bara að auka líkur á heilsufarslegum kvillum, mjög alvarlegum kvillum, offitu, hjartasjúkdómum og fleiru sem skerðir lífslíkur okkar verulega.

Við verðum að fá þessa sjö til átta tíma sem við þurfum. Við lifum ekki án svefnsins.“

Hátt brottfallshlutfall í framhaldsskólum

Hún segir að Hið íslenska svefnfélag styðji þingsályktunartillöguna um seinkun klukkunnar um klukkustund. „Við höfum verið miklir talsmenn þess að leiðrétta tímann hér á Íslandi og vera í réttum takti. Rannsóknir sýna að Íslendingar fara seinna að sofa en fólk í nágrannalöndunum. Við þurfum samt að vakna á sama tíma og aðrir til að mæta í vinnu og fáum því mun skemmri svefn en aðrar þjóðir,“ segir Erla.

Hátt brottfallshlutfall í framhaldsskólum hér á landi getur verið rakið til núgildandi fyrirkomulags að sögn Erlu. „Mikið brottfall og ýmislegt annað getur að einhverju leyti skýrst af því að við erum á röngum tíma. Mikilvægt er því að rannsaka þetta vel og við erum núna að rannsaka svefnvenjur Íslendinga í skammdeginu og á sumrin til að sjá hvort birtan hafi einhver áhrif. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því.“

Í dag er dagur svefnsins haldinn um heim allan þar sem svefnfélög minna á mikilvægi svefns í daglegu lífi mannsins. „Þessi dagur er notaður á hverju ári til að minna á mikilvægi svefns fyrir lýðheilsu og honum fylgir ýmis dagskrá um allan heim. Fyrirlestrar, fræðsla og greinaskrif þar sem gerð er grein fyrir svefni sem þeirri mikilvægu grunnstoð sem hann vissulega er.“

Svefn er mjög mikilvægur fyrir mannfólkið að sögn Erlu Björnsdóttur.
Svefn er mjög mikilvægur fyrir mannfólkið að sögn Erlu Björnsdóttur. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Erla Björnsdóttir sálfræðingur og varaformaður Hins íslenska svefnfélags.
Erla Björnsdóttir sálfræðingur og varaformaður Hins íslenska svefnfélags. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert