„Ég bara botna ekki í þessari ríkisstjórn satt best að segja. Það eru nú mín fyrstu viðbrögð,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna Já Ísland sem hlynnt eru inngöngu Íslands í Evrópusambandið, spurður um viðbrögð við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að draga umsóknina um inngöngu í sambandið til baka.
Spurður hvort ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi komið honum á óvart segir Jón Steindór svo vera líkt og vafalaust í tilfelli allrar þjóðarinnar. „Hún kemur mér algerlega í opna skjöldu þessi vegferð sem menn hafa lagt í. Að minnsta kosti hafa stjórnarherrarnir talað öðruvísi allavega frá áramótum og sagst vera að undirbúa þingsályktun um málið. En þeir hafa greinilega verið að undirbúa eitthvað allt annað. Þannig að þetta eru bara hrein og klár undirferli við þing og þjóð sem verða þeim til ævarandi skammar.“