Besta hugsanlega niðurstaðan

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Ákvörðun utanríkisráðherra um að lýsa því við ESB að Ísland teljist ekki lengur umsóknarland er besta hugsanlega niðurstaðan í erfiðu máli. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í viðtali við Eyjuna. Hann undrast gagnrýni á meðferð málsins.

„Með þessu næst besta hugsanlega niðurstaða í erfiðu máli. Við hættum umsóknarferlinu í góðu og getum loks haldið áfram að byggja upp samstarf við Evrópuríkin á nýjum forsendum. ESB sýnir því skilning og mun eflaust taka því vel ef Íslendinga langar til að sækja um aðild einhvern tímann í framtíðinni,“ segir forsætisráðherra í viðtalinu.

Ekki sé hægt að kalla það annað en frekju þegar menn heimta að ríkisstjórn fái ekki að lýsa afstöðu sinni til umsóknarinnar og megi ekki hafa sama svigrúm í þessum málum og síðasta ríkisstjórn sem áskildi sér rétt til að slíta viðræðum á hvaða stigi málsins sem er.

„Þetta gæti varla verið einfaldara. Alþingi sótti ekki um aðild og það það gerði þjóðin svo sannarlega ekki. Það var síðasta ríkisstjórn sem sótti um aðild og hafnaði því sérstaklega að spyrja þjóðina álits. Naumur og þvingaður meirihluti síðasta þings studdi umsókn um aðild en það gerir núverandi þing ekki. Það er fráleitt að halda því fram að verkbeiðni síðasta þings til þáverandi ríkisstjórnar bindi öll þing og allar ríkisstjórnir framtíðar,“ segir Sigmundur Davíð.

Forystumenn sambandsins með á nótunum

Það hvernig staðið hafi verið að því að ljúka ferlinu hafi verið undirbúið með Evrópusambandinu og þar hafi verið sameiginlegur skilningur á því hvernig best væri að standa að þessu.

„Það breytir því engu þótt einhverjir þeirra sem svara í síma í skrifstofum ESB séu ekki með þetta á hreinu og reyni að snúa sig út úr málinu með svörum á borð við að bréfið hafi verið svo svakalega langt að það muni taka marga daga að fara í gegnum það. Bréfið var ein síða og forystumenn í mismunandi stofnunum sambandsins voru alveg með á nótunum,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann segir að afstaðan sé skýr: „Við viljum ekki ganga í ESB og af því leiðir að við viljum ekki sækjast eftir því að ganga í ESB.“

Viðtal Eyjunnar við forsætisráðherra um Evrópusambandsmálið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert