Fá ekki gögn um uppljóstrara

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu Lárusar Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Jóhannesar Baldurssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hjá Glitni, en þeir eru báðir sakborningar í Stím-málinu svokallaða.

Lárus krafðist dómkvaðningu matsmanna en Jóhannes krafðist þess að sér yrði afhent nánar tilgreind skjöl. Krafa hans laut í fyrsta lagi að afhendingu tiltekins hluta bréfs sem sérstakur saksóknari sendi ríkissaksóknara í febrúarmánuði í fyrra þar sem þess var óskað að Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi forstöðumaður gjaldeyrismiðlunar Glitnis, fengi réttarvernd í Stím-málinu.

Í öðru lagi að tveimur nafngreindum yfirlögregluþjónum hjá sérstökum saksóknara yrðu gert að afhenda sér gögn um samskipti þeirra við aðra starfsmenn embættisins, Magnús Pálma og lögmann hans fram til febrúar í fyrra. Lögregluþjónarnir yfirheyrðu Magnús Pálma þrisvar sinnum.

Og í þriðja lagi krafðist Jóhannes þess að Glitni yrði gert að afhenda sér pósthólf og önnur gögn um Magnús Pálma og fleiri samstarfsmenn hans hjá bankanum.

Öllum þessum kröfum Jóhannesar var hafnað. Hæstiréttur benti meðal annars á í dómi sínum að á meðal gagna Magnúsar og annarra fyrrum starfsmanna Glitnis væru í ríkum mæli upplýsingar um fjárhagsmálefni fjölmargra viðskiptamanna Glitnis sem leynd yrði að ríkja um. Þá væru einnig um að ræða persónulegar orðsendingar, sem starfsmenn félagsins fengu eða sendu og vörðuðu einkalíf þeirra. En Jóhannes krafðist þess meðal annars að sér yrðu afhent dagbókar- og verkefnafærslur, vistuð MSN-samskipti og hljóðrituð borðsímtöl.

Enn er beðið þess að þing­hald geti haf­ist í mál­inu og frest­ur verði gef­inn til að skila inn greinar­gerðum. Rúmt ár er liðið frá því að ákær­ur í mál­inu voru gefn­ar út. Þeir Lár­us og Jóhann­es eru ákærðir ásamt Þor­valdi Lúðvík Sig­ur­jóns­son, fyrrverandi for­stjóra Saga Capital, fyr­ir umboðssvik og hlut­deild í umboðssvik­um þegar Glitn­ir lánaði fé­lag­inu Stím tugi millj­arða króna.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert