Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar hjá ASÍ, segir nýja skýrslu Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn sýna að hægt sé að „lækka verð til neytanda umtalsvert á dagvörumarkaði“.
Morgunblaðið hefur fjallað um skýrsluna en meginniðurstaðan er sú að dagvöruverslanir hafi ekki skilað gengisstyrkingu til neytenda.
„Ég fagna þessari skýrslu. Þetta er góð samantekt þó þarna sé ekki margt sem kemur á óvart. Það er mikil samþjöppun á dagvörumarkaði ... Í skýrslunni kemur fram að minni verslanir reyna frekar að keppa við þær stærri í formi einstakra verðtilboða frekar en að minni aðilar bjóði vöru á lægra verði til lengri tíma. Þetta er í samræmi við það sem við hjá ASÍ höfum séð í okkar verðkönnunum,“ segir Ólafur Darri í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.