Skattrannsóknarstjóri hefur nú undir höndum gögn tengd Íslandi úr stórbankanum HSBC. Gögnin komu frá frönskum skattayfirvöldum, að því er Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóra, segir í samtali við Fréttablaðið i dag.
Greint var frá því í síðasta mánuði að bankinn hefði aðstoðað viðskiptavini við að fela fé og komast hjá því að greiða skatta. Skjölin um skattaundanskot voru frá útibúi bankans í Sviss sem fyrrverandi starfsmaður hans lak árið 2007.
Fram kom í erlendum fjölmiðlum í febrúar að í gögnunum hafi verið 18 bankareikningar í eigu sex aðila sem tengjast Íslandi og nam heildarfjárhæðin á þessum reikningum 9,5 milljónum dollara. Hæsta fjárhæðin tengd einum þessara aðila nam 8 milljónum dollara, að því er segir í blaðinu.
Bryndís vill ekki tjá sig um hvort svo sé. „Ég vil ekkert segja um þetta. Það er verið að fara yfir gögnin," segir hún í samtali við Fréttablaðið í dag.
Þá segir, að skattrannsóknarstjóri hafi einnig nýlega fengið hluta viðbótargagna frá Bretlandi sem beðið hafi verið eftir vegna rannsókna á skattaundanskotum. Bresk yfirvöld sendu skattrannsóknarstjóra í fyrra lista með nöfnum 10 Íslendinga sem tengjast svokölluðum skattaskjólum.
Loks kemur fram, að samningaviðræður um kaup á gögnum með nöfnum nokkurra hundraða Íslendinga sem tengjast skattaskjólum standi enn yfir að sögn Bryndísar.