Útgerðarfyrirtækið Vísir hf. hefur selt fasteignir sínar á Þingeyri, ásamt tækjum og búnað til fiskvinnslu.
Kaupandinn er Íslenskt sjávarfang sem stefnir að því að fjölga störfum við fiskvinnslu á Þingeyri frá því sem nú er og vinna og frysta þar allt að 4.000 tonn af fiski á ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum tveimur þar sem jafnframt segir að markmiðið með kaupsamningnum sé að viðhalda og efla atvinnulíf á Þingeyri og að kaupverðið taki mið af því. Kaupverðið hækkar um 50 milljónir króna standi Íslenskt sjávarfang ekki við þau ákvæði samningsins að halda uppi fullri atvinnustarfsemi á staðnum í fimm ár og vera með að minnsta kosti 20 stöðugildi.