Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli klukkan tvö í dag vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að slíta endanlega aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Sem kunnugt er afhenti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fulltrúum sambandsins bréf á fimmtudaginn þar sem segir að ríkisstjórnin hafi samþykkt að hún hyggist ekki taka upp aðildarviðræður við ESB á ný.
Á Facebook-síðu mótmælanna hafa yfir fimm þúsund manns boðað komu sína. Þar segir jafnframt að með því að slíta endanlega viðræðunum við ESB hafi ríkisstjórnin „kosið að hunsa vilja þjóðarinnar í einu og öllu. Ákvörðunin er tekin með sérhagsmuni í huga en ekki hagsmuni þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin gengur gróflega gegn vilja þjóðarinnar í málinu, en 82% hennar vildi kjósa um það samkvæmt skoðanakönnun og 53.355 skrifuðu undir áskorun þess efnis.
Mætum á Austurvöll á sunnudaginn og sendum ríkisstjórninni sterk skilaboð. Samningur við Evrópusambandið er ákvörðun allar Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki einhliða ákvörðun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins,“ segir þar jafnframt.
Illugi Jökulsson rithöfundur, Jóna Sólveig Elínardóttir alþjóðastjórnmálafræðingur, Jórunn Frímannsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi og Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur munu öll flytja ávarp á mótmælafundinum.