„Ekkert valdarán átti sér stað“

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að ekkert valdarán hafi átt sér stað þegar hann afhenti fulltrúum Evrópusambandsins bréf á fundi þar sem segir að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt að hún hyggist ekki taka upp aðildarviðræður við ESB á ný.

Þetta kom fram í viðtali við Gunnar Braga í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 fyrr í dag. Gunnar Bragi segir að við gerð stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 2013 hefðu flokkarnir tveir sammælst um að viðræðum yrði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Því hafi stefnan verið skýr frá fyrsta degi ríkisstjórnarinnar og segir hann tíma hafa verið kominn til að skýra það fyrir Evrópusambandinu.

Björn Ingi Hrafnsson, umsjónarmaður Eyjunnar, spurði Gunnar Braga út í vinnubrögðin: hvort ekki hefði verið réttast að fara með afturköllun ESB-umsóknar fyrir þingið. Gunnar sagði það hafa verið reynt fyrir ári síðan en að tillaga ríkisstjórnarinnar hefði verið tekin í gíslingu af stjórnarandstöðunni. Ríkisstjórnin taldi því farsælast að ljúka viðræðum með þeim hætti sem varð þar sem ný tillaga hefði að öllum líkindum verið tekin í gíslingu af stjórnarandstöðunni, sagði Gunnar Bragi við Björn Inga og bætti við að ríkisstjórnin væri ekki bundin af ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar. Markmiðið hafi verið að klára málið án þess að efna til margra mánaða átaka á þinginu.

Segir utanríkisráðherra skipta um skoðun einu sinni á dag

Gestir þáttarins voru einnig þeir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. Þorsteinn sakaði Gunnar Braga um að skipta um skoðun einu sinni á dag varðandi hvaða áhrif bréfið hefði á framhald ESB-umsóknar Íslands. Hann sagði bréfið hafa verið samið á leynifundum í Brussel og að slíkt siðferði gengi ekki á Alþingi, en þar vísaði Þorsteinn til þess sem Gunnar sagði um að bréfið hefði verið samið í samvinnu við fulltrúa Evrópusambandsins. Þá sagði Þorsteinn að þjóðin ætti að fá að kjósa um framhaldið og að það mætti ekki gerast síðar en samhliða næstu alþingiskosningum. 

Össur Skarphéðinsson, Björn Ingi Hrafnsson og Þorsteinn Pálsson.
Össur Skarphéðinsson, Björn Ingi Hrafnsson og Þorsteinn Pálsson. Skjáskot úr Eyjunni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert