Talið er að um sjö þúsund manns séu komin saman á Austurvelli, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni, til að mótmæla þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að slíta endanlega aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Fólk streymir enn að úr öllum áttum.
Yfir fimm þúsund manns höfðu boðað komu sína, en þetta eru önnur mótmælin sem boðuð eru frá því að ákvörðun ríkisstjórnarinnar var gerð opinber seinasta fimmtudag.
Sem kunnugt er afhenti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fulltrúum sambandsins bréf á fimmtudaginn þar sem segir að ríkisstjórnin hafi samþykkt að hún hyggist ekki taka upp aðildarviðræður við ESB á ný.
Á Facebook-síðu mótmælanna segir að með því að slíta endanlega viðræðunum við ESB hafi ríkisstjórnin „kosið að hunsa vilja þjóðarinnar í einu og öllu. Ákvörðunin er tekin með sérhagsmuni í huga en ekki hagsmuni þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin gengur gróflega gegn vilja þjóðarinnar í málinu, en 82% hennar vildi kjósa um það samkvæmt skoðanakönnun og 53.355 skrifuðu undir áskorun þess efnis.
Mætum á Austurvöll á sunnudaginn og sendum ríkisstjórninni sterk skilaboð. Samningur við Evrópusambandið er ákvörðun allar Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki einhliða ákvörðun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins,“ segir þar jafnframt.
Illugi Jökulsson rithöfundur, Jóna Sólveig Elínardóttir alþjóðastjórnmálafræðingur, Jórunn Frímannsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi og Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur flytja öll ávarp á mótmælafundinum. Fundastjóri er Sif Traustadóttir.
Hér má sjá beina útsendingu frá Austurvelli úr vefmyndavél Mílu.