Utanríkismálum útvistað til leikskóla

Þorsteinn Pálsson.
Þorsteinn Pálsson. mbl.is/Rax

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að engu líkara væri en að utanríkismálum þjóðarinnar hafi verið útvistað til leikskólans á Grænuborg.

„Maður veit eiginlega ekki hvort á að taka þetta í alvöru eða gamni,“ sagði Þorsteinn og bætti við að hann væri algjörlega gáttaður á stöðu utanríkismála í landinu.

Eins og kunnugt er afhenti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fulltrúum Evrópusambandsins bréf seinasta fimmtudaginn þar sem segir að ríkisstjórnin hafi samþykkt að hún hyggist ekki taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik.

Þorsteinn sagði að með því að sniðganga lögbundið samráð við Alþingi, þá væru „einhverjar siðferðilegar stoðir brostnar“.

Hann nefndi jafnframt að það væri engin tilviljun að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði hrunið eftir síðasta landsfund flokksins þar sem núverandi stefna hans í Evrópumálum var samþykkt. Flokkurinn hefði ávallt verið í foyrstuhlutverki þegar kæmi að utanríkismálum þjóðarinnar en nú væri staðan önnur.

„Og ég sakna þess að flokkurinn hafi gefið það hlutverk eftir. Afleiðingin er sú að utanríkismálin eru eins og einhver skrípaleikur,” sagði Þorsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert