„Það er ekki hægt að eiga í efnislegum viðræðum við Evrópusambandið ef hugur fylgir ekki máli. Hafi menn ekki þingmeirihluta traustan að baki sér, hafi menn ekki ráðherra í ráðherrastólum sem ætla að vinna að framgangi málsins þá er þetta fyrirfram dauðadæmt.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í umræðum um yfirlýsingu forseta þingsins um stöðu þess í ljósi ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu. Bjarni sagði þetta vera lærdóminn af síðasta kjörtímabili og vísaði til þess að þáverandi stjórn hafi verið klofin í afstöðu sinni til inngöngu í sambandið. Sú stjórn hefði að lokum stöðvað viðræðurnar í janúar 2013.
„Nú höfum við ríkisstjórn þar sem enginn ráðherra styður aðild að Evrópusambandinu. Við höfum flokka í ríkisstjórn með meirihluta hér á þingi sem hvorugur stefnir að inngöngu í Evrópusmabandið. Samt láta þeir sem stóðu að málinu hér á síðasta kjörtímabili eins og það sé bara sjálfsagt og eðlilegt að krefjast þess af ríkisstjórninni sem nú situr að hún vinni að inngöngu í Evrópusambandið fyrir Ísland,“ sagði Bjarni ennfremur.
Þetta væri ótrúlegur málflutningur hjá stjórnarandstöðunni og hann sagðist vita að menn töluðu þar gegn betri vitund. Bjarni sagði viðræðurnar við Evrópusambandið í raun ekki hafa skilað neinu nema því að samið hafi verið aftur um EES-samninginn. Hvað þjóðaratkvæðagreiðslur varðaði sagðist hann aldrei hafa í eitt skipti fyrir öll útilokað slíkar atkvæðagreiðslur í tengslum við Evrópumálin.
„Það eina sem ég hef bent á er að það er algerlega óraunhæft að ætlast til þess að ríkisstjórn sem hyggur ekki á inngöngu í Evrópusambandið taki að sér að leiða slíkar aðlögunarviðræður. Það er ekki raunhæft,“ sagði Bjarni. Málið væri í fullkomlega eðlilegum farvegi í samræmi við niðurstöður síðustu kosningar, stefnu stjórnarflokkanna, stjórnarsáttmálann og yfirlýsingar sem gefnar hafi verið frá því að ríkisstjórnin hafi verið mynduð.