Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, minnist þess ekki að staða Alþingis hafi verið rædd áður undir sérstöku dagskrárheiti en liðurinn „staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana,“ verður á dagskrá þingfundar Alþingis sem hófst nú klukkan 15.
„Það var samkomulag þingsflokksformanna og forseta um að hafa slíka umræðu,“ segir Helgi og bætir við að umræðan snúist um Evrópumálin og bréfið sem Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, afhenti fulltrúum Evrópusambandsins fyrir helgi.
Hann segir dagskrárliðinn standa yfir í um það bil einn og hálfan tíma og opnar forseti Alþingis umræðuna. „Það er auðvitað spurningin um það, hver er staða ályktana Alþingis og hvort bréf utanríkisráðherra gangi á rétt Alþingis í þessu máli,“ segir Helgi en stjórnarandstaðan óskaði eftir því að fá málið á dagskrá í dag sem forseti Alþingis féllst á.