Afkomubrestur varð hjá refastofninum á Hornströndum á síðasta ári. Mörg fullorðin dýr fundust dauð, færri pör komu yrðlingum á legg en áður og margir yrðlingar drápust.
Þetta kemur fram á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands en þar er vitnað í fyrirlestur, sem Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur, flutti í síðustu viku.
Segir hún, að hægt sé að tala um algert hrun í þessu samhengi þar sem ekkert viðlíka hafi sést á þeim 16 árum, sem liðin eru frá því skipulega var farið að fylgjast með ref á svæðinu.