„Stappar nærri landráðum“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, sagði í umræðum á Alþingi í dag það stappaði nærri landráðum að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafi átt í viðræðum við Evrópusambandið um orðalag á bréfinu sem ríkisstjórnin sendi sambandinu þar sem farið var fram á að Ísland væri tekið af lista yfir umsóknarríki.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa farið mikinn í umræðum á Alþingi í dag um ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur verið sökuð um að reyna að fara framhjá þinginu í málinu og að í stað þingræðis hefði verið innleitt ráðherraræði. Svo virtist sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar teldu sig geta gert hvað sem er á meðan ekki væri samþykkt vantraust á þá. Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sagði að svo virtist sem ríkisstjórnin skildi ekki stjórnskipan landsins. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sagðist ósammála því. Ríkisstjórninni væri einfaldlega sama um hana.

Mikið var rætt um það hvort engar þingsályktunartillögur væri í gildi fyrst ríkisstjórnin teldi ekki að þingsályktun frá 2009 um umsókn um inngöngu í Evrópusambandið væri bindandi fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert