Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram tvær skriflegar fyrirspurnir á Alþingi til Ólafar Nordal innanríkisráðherra um lögfræði- og fjölmiðlaráðgjöf í tengslum við skýrslu um samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008–2011 og lekamálið.
Jón Þór spyr annars vegar um slíka ráðgjöf í tilfelli ráðuneytisins sjálfs frá annars vegar Argus markaðsstofu og hins vegar frá lögmannsstofunni LEX vegna lekamálsins. Spyr hann hvenær ráðgjöfin hafi farið fram, í hverju hún hafi falist og hversu mikið hafi verið greitt fyrir hana.
Ennfremur spyr Jón Þór um ráðgjöf sem embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hafi fengið frá almannatengslafyrirtækinu KOM 2014-2015 í tengslum við skýrslu um samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008–2011 og lekamálið.