Meirihluti atvinnuveganefndar afgreiddi breytingartillögu um rammaáætlun úr nefndinni á fundi sínum í morgun, en með henni er lagt til að fjórir virkjanakostir til viðbótar við Hvammsvirkjun verði færðir úr biðflokki í nýtingarflokk. Umhverfisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu í haust um að Hvammsvirkjun yrði færð úr biðflokki í nýtingarflokk.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, vakti athygli á þessu í upphafi þingfundar á Alþingi í dag og sagði að með þessu væri án efa verið að brjóta í bága við lög um rammaáætlun. Sagðist hún telja breytingartillöguna óþingtæka og að ef málið ætti að ná fram að ganga þyrfti stjórnin að leggja fram breytingartillögu um lög um rammaáætlun.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir og gagnrýndu vinnuna mjög. Var ekki síst bent á það að einn virkjanakosturinn, Hagavatnsvirkjun, hefur ekki verið fullskoðaður af verkefnisstjórn um rammaáætlun.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sagði alla vinnu meirihlutans í málinu vera til skammar. „Öll fagleg ferli og vinnubrögð eru þverbrotin, farið er gegn anda og inntaki laganna um rammaáætlun,“ sagði hann, og bætti við að þarna væri gamla handaflið í þágu virkjunar og stóriðju ríkjandi.
Þá sagði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að ríkisstjórninni væri alveg sama um verkferla í löggjöf ef hún er á annarri skoðun. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tók undir og sagði að ekki væri um þingræði að ræða heldur meirihlutaræði, sem gerði það að verkum að erfitt væri að bera virðingu fyrir Alþingi.
„Þetta sýnir algjört virðingarleysi stjórnarmeirihlutans um lögboðið ferli,“ sagði Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar. Sagði hann það hafa sýnt sig síðustu daga að það skipti engu hvað standi í lögum.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagðist ekki hafa haft tíma til að skoða málið en hann myndi gera það í kjölfar fyrirspurna þingmanna. Þinginu væri ætlaður ríkur réttur til að koma með tillögur um mál sem verið væri að skoða hverju sinni.