Sat uppi með tvö sprungin dekk

Tvö dekk á bíl Hrannar sprungu í gær.
Tvö dekk á bíl Hrannar sprungu í gær.

„Mér brá alveg gífurlega. Ég hef aldrei lent í þessu áður,“ segir Hrönn Vilhelmsdóttir en hún sat uppi með tvö sprungin dekk eftir að hafa keyrt ofan í holur á brúnni yfir Miklubraut við Snorrabraut í gær. Eins og í flestum bílum var aðeins eitt varadekk í bíl Hrannar og þurfti hún því að fá aðstoð frá starfsmönnum dekkjaverkstæðis til þess að koma bílnum aftur af stað.

Hrönn hringdi strax í Reykjavíkurborg sem benti henni á að hafa samband við Vegagerðina sem samkvæmt upplýsingum frá borginni á brúna. Vegagerðin benti Hrönn á að hafa samband við Sjóvá sem er tryggingarfélag stofnunarinnar. Að sögn Hrannar vissu starfsmenn Sjóvá lítið sem ekkert og gátu ekkert gert. Var henni sagt að hún þyrfti að bjarga sér sjálf með nýtt dekk en gæti reynt að koma með reikning og gert kröfu á Vegagerðina. Hrönn hringdi á nokkra staði og fékk starfsmenn frá Gúmmívinnustofunni í Skipholti til þess að koma og aðstoða hana. Fyrir aukadekk og vinnu greiddi hún rúmlega 50 þúsund krónur. Hún segist ekki bjartsýn á að fá tjónið bætt. 

„Ég keyrði þarna rétt áðan og sá að það var búið að fylla í holurnar,“ segir Hrönn. „En þessar holur hafa sýnilega verið til vandræða, ég held að ég hafi séð níu eða tíu hjólkoppa á víð og dreif á brúnni.“

Hrönn segir það augljóst að ástandið á götum borgarinnar sé slæmt. „Þeir á verkstæðinu sögðu að það væri mjög mikið að gera í þessu. Nefndu þeir að fólk væri að lenda í að brjóta rúður er keyrt er í holurnar, þetta er svo svakalegt högg. Þetta fer mjög illa með bílana og er stórt tjón fyrir þjóðfélagið,“ segir Hrönn.

Hrönn segir það mjög slæmt að borgin og Vegagerðin geti ekki unnið saman að því að reyna að bjarga þessum málum. „Þarna var borgin búin að laga þarna í kring en ekki á brúnni því Vegagerðin á hana. Undarlegt að þær holur sem starfsmenn sjá, kannski í fimm metra fjarlægð, séu ekki bara lagaðar. Við  þurfum að hjálpa hvort öðru því ástandið er mjög slæmt. Það myndi gera þetta miklu auðveldara.“

Holurnar voru stórar og djúpar. Nú er búið að fylla …
Holurnar voru stórar og djúpar. Nú er búið að fylla upp í þær.
Starfsmenn Gúmmívinnustofunnar Skipholti komu til bjargar.
Starfsmenn Gúmmívinnustofunnar Skipholti komu til bjargar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert