Það er engin sérstök ástæða um þessar mundir að lögleiða skyldu til bólusetningar til að bæta almenna þátttöku barna að sögn sóttvarnalæknis. Miklu frekar þurfi að bæta innköllunarkerfi heilsugæslunnar og að fræða foreldra og heilbrigðistarfsmenn um mikilvægi bólusetninga.
Þetta kemur fram á vef landlæknisembættisins. Þar vill sóttvarnalæknir skýra betur tölur um þátttöku í bólusetningum vegna mikillar umræðu um meinta lága þátttöku hér á landi.
Fram kemur, að um 2% barna sem fædd eru á árunum 1995 – 2012 vanti allar bólusetningar sem túlka megi að foreldrar þessara barna hafi líklega valið að bólusetja þau ekki. Þetta sé í samræmi við niðurstöðu rannsóknar hér á landi um að rúmlega 95% almennings sé mjög hlynntur bólusetningum barna.
Þá segir, að um 6% barna sem fædd eru á árunum 1995 – 2012 séu óbólusett gegn mislingum eða um 260 börn í hverjum árgangi. Þessar tölur eru mjög svipaðar þátttökutölum frá hinum Norðurlöndunum. Börn hér á landi sem bólusett hafa verið gegn mislingum hafa ýmist fengið eina eða tvær bólusetningar en áætlað er að um 93% þeirra sem fengið hafa eina bólusetningu séu varin gegn mislingum en um 97% þeirra eftir tvær bólusetningar eins og mælt er með í dag.
Almenn þátttaka í bólusetningum hér á landi er því góð þó þátttökuna megi bæta við 12 mánaða, 18 mánaða og 4 ára aldur. Ófullnægjandi þátttaka á þessum aldursskeiðum virðist því fremur vera af tæknilegum toga en andstöðu foreldra. Til að bregðast við þessu hefur sóttvarnalæknir verið í samvinnu við heilsugæsluna um að kalla inn óbólusett og vanbólusett börn.
Það er því skoðun sóttvarnalæknis að engin sérstök ástæða sé um þessar mundir að lögleiða skyldu til bólusetningar til að bæta almenna þátttöku barna. Miklu frekar þarf að bæta innköllunarkerfi heilsugæslunnar og að fræða foreldra og heilbrigðistarfsmenn um mikilvægi bólusetninga til að halda hér uppi góðri þátttöku.
Fyrri fréttir mbl.is um bólusetningar
Ekki krafist bólusetningar barna
Tillagan róttæk og vanhugsuð
Vilja að bólusetning verði skilyrði fyrir leikskólavist