Miðstjórn ASÍ vill að landsmenn fái að segja sitt álit á því hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði framhaldið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún segir nýjasta útspil utanríkisráðherra með slíkum ólíkindum að undru sæti.
Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnarinnar.
Þar segir, að frá árinu 2008 hafi ársfundir og þing Alþýðusamband Íslands ítrekað ályktað um Evrópumál. Í þeim ályktunum hafi meginstefið verið að aðildarviðræðum verði lokið og aðildarsamningur lagður í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Núverandi ríkisstjórn komst m.a. til valda vegna loforða fyrir kosningarnar 2013 um að þjóðin yrði spurð hvort halda ætti aðildarviðræðum við ESB áfram. Það loforð var svikið. Utanríkisráðherra reyndi að ýta málinu út af borðinu í febrúar í fyrra þegar hann setti fram þingsályktunartillögu um að viðræðum yrði slitið en uppskar ekki annað en reiðiöldu og mótmæli í samfélaginu, m.a. miðstjórnar ASÍ sem sendi frá sér harðorðaða ályktun af þessu tilefni,“ segir í ályktuninni.
„Nýjasta útspil utanríkisráðherrans í samskiptum við Evrópusambandið er með slíkum ólíkindum að undrun sætir. Í þeim einbeitta ásetningi sínum að slíta aðildarviðræðum Íslands við ESB hunsaði hann leikreglurnar, hann hunsaði sjálft Alþingi Íslendinga sem hóf þessa vegferð á sínum tíma. Ráðherrann og ríkisstjórnin hunsa líka vilja meirihluta þjóðarinnar sem vill ljúka viðræðum og fá að kjósa um aðildarsamning. Þetta er svo risavaxið álitamál um framtíðarmöguleika okkar þjóðar, að það hlýtur að vera réttmæt krafa að þjóðin sjálf fái að segja sitt álit. Það hlýtur einnig að vera lágmarkskrafa til ráðherra í ríkisstjórn að þeir standi við loforð sem þeir marg endurtóku fyrir kosningar. Við hvað er ríkisstjórnin hrædd? Leyfið fólkinu að segja sitt álit á því hvort aðildarviðræðum við ESB verði framhaldið með þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir ennfremur.