Vilja að þjóðin fái að kjósa

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. Ernir Eyjólfsson

Stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir: Píratar, Björt framtíð, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin - grænt framboð, hyggjast flytja tillögu á Alþingi um að þjóðin fái að kjósa um hvort þráðurinn verði tekinn upp að nýju í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Róbert Marshall, formaður þingflokks Bjartrar framtíðar, segir að í tillögunni sé lagt til að þjóðin verði spurð álits. „Það er enginn að gera ráð fyrir því að þessi ríkisstjórn sé þvinguð til að gera eitthvað sem er henni þvert á móti skapi. Hún hins vegar lofaði því fyrir síðustu kosningar að þessi mál yrðu sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og við erum að flytja tillögu þess efnis,“ segir Róbert og bætir við að það yrði athugavert ef ríkisstjórnarflokkarnir greiddu atkvæði gegn eigin kosningaloforði.

Hann segir að Evrópusambandið sé ekki búið að túlka bréf utanríkisráðherra til fulltrúa sambandsins þar sem stefnu núverandi ríkisstjórnar í Evrópumálum er lýst og óskað var eftir því að Ísland yrði ekki lengur talið meðal umsóknarríkja sambandsins, og því enn hægt að kjósa um málið.

Formennirnir flutningsmenn

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna, Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Birgitta Jónsdóttir eru flutningsmenn tillögunnar en lagt er til að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram 26. september næstkomandi.

„Það er innan þess ramma sem gert er ráð fyrir. Þá ætti að vera nægur tími til að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna,“ segir Róbert. Hann segir að í tillögunni sé lagt til að þjóðin yrði spurð: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar.“

„Við munum óska eftir því að þetta verði tekið inn á dagskrá sem fyrst. Það er að hefjast fundur þingflokksformanna með forseta og ég geri ráð fyrir því að við munum óska eftir því að málið verði tekið inn á dagskrá sem fyrst,“ segir Róbert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka