„Maður er búin að vera að standa sig í öll þessi ár, þrátt fyrir uppskurði, örorku og fleira og alltaf tekist að rísa upp. En nú bara get ég þetta ekki lengur,“ segir hin 82ja ára Guðrún Einarsdóttir ellilífeyrisþegi sem greindi frá stöðu aldraðra á blaðamannafundi á heimili sínu í dag.
Guðrún varð öryrki árið 1987 eftir fjölda uppskurða, meðal annars á baki og hnjám. „Það þurfti að skipta um mjöðm og hné, og nú er hitt hnéð farið að gefa sig líka.“ Hún var lögð inn á spítala í fyrra, og að spítaladvöl hennar lokinni var hún send á hjúkrunarheimilið að Vífilsstöðum í Garðabæ þar sem fólk er sent sem bíður eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili.
Áður en Guðrún var lögð inn á spítala var hún með 176.884 kr. á mánuði í ellilífeyristekjur. Fyrr í þessum mánuði barst henni bréf þar sem kom fram að þar sem hún hafði dvalist í meira en sex mánuði á stofnun ætti hún ekki rétt á lífeyri. Þess í stað fær hún vasapeninga að upphæð 53.354 kr á mánuði. Afgangurinn fer í vistgjaldið á hjúkrunarheimilinu.
„Þessar 53 þúsund krónur duga ekki í neitt, ég get ekki einu sinni ferðast með strætó. Ég gefst bara upp,“ segir Guðrún og er ósátt með stjórnvöld. „Við ólum þessa kynslóð upp og nú eru það afar þeirra og ömmu sem þeir setja á gaddinn. Örorkan mín virðist ekki hafa neitt að segja, að þeirra mati er ég bara læknuð.“
Guðrún vísar í mánaðarleg útgjöld hennar og segir að reiknisdæmið gangi einfaldlega ekki upp.
Hún segist ekki ánægð með baráttu Landssambands eldri borgara. Hún hafi því ásamt fleirum fyrir nokkrum árum stofnað aðgerðarhóp aldraðra og reynt að tala við stjórnvöld, en að það hafi að lokum ekki skilað neinu.
Hún segir einnig að þær hækkanir sem hafa orðið á lífeyrisgreiðslum undanfarin ár hafi ekki skilað sér til lífeyrisþega. „Áramótin 2012/2013 voru greiðslur frá TR hækkaðar um 4,9% líkt og á almennum markaði. Hins vegar voru umönnunarbæturnar teknar í burtu. Áramótin 2013/2014 var almenn launahækkun 2,8% hjá launþegum landsins og greiðslur frá TR sömuleiðis. Hins vegar var uppbót lyfjakostnaðar lækkuð úr 10.055 kr í 1.820 kr. Hvernig er ætlast til þess að við höldum lífi?“