Alls eru nú 2.274 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og hefur þeim fækkað um 162 síðan í október, eða um tæp 7% á fimm mánuðum.
Þetta kemur fram í nýrri talningu Samtaka iðnaðarins og eru niðurstöðurnar sýndar í töflu hér til hliðar. Mest munar um að íbúðum í fjölbýli sem eru komnar að fokheldu byggingarstigi fækkar um 178.
Jón Bjarni Gunnarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir áhyggjuefni að íbúðum í byggingu sé að fækka. Samtökin áætli að 1.500-1.800 nýjar íbúðir þurfi að bætast við á markaðinn á hverju ári til að anna eftirspurn. Um tvö ár taki að byggja nýja íbúð og því þurfi minnst um 3.000 íbúðir að vera í byggingu til að mæta neðri mörkum þessarar áætluðu eftirspurnar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.