Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fer til Kína 20. mars í vinnuferð ásamt nokkrum starfsmönnum ráðuneytisins og fleirum. Einnig verða í för aðilar frá Marel og Orku Energy.
Ráðherrann mun halda fundi með ráðherrum menntamála, menningarmála, vísinda- og rannsókna og undirrita viljayfirlýsingu um samstarf ríkjanna á sviði vísinda- og rannsókna með þeim síðast nefnda, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Auk þess mun hann eiga fundi framkvæmdastjóra íþróttamála kínverska ríkisins og framkvæmdastjóra náttúruvísindastofnunar Kína og verður við það tilefni undirritaður samningur um samstarf milli þeirrar stofnunar og Rannís. Þá mun ráðherrann og sendinefndin hitta forsvarsmenn heimskautarannsóknastofnunar Kína (Polar Research Institute) og stofnunar sem fer með málefni hafsins (State Oceanic Administration).
Ráðherrann mun heimsækja Hebei og Tsinghua háskólana í Peking ásamt rektorum Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, forstöðumanni Rannís og fleirum. Þá verður heimsókn á jarðhitasvæði í nágrenni Peking og fundur með borgarstjóra.
Með ráðherranum verða í för Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri, Karitas H. Gunnarsdóttir skrifstofustjóri skrifstofu menningarmála, Þórarinn Sólmundarson sérfræðingur á skrifstofu mennta- og vísindamála og Sigríður Hallgrímsdóttir aðstoðarkona ráðherra.
Þá verða einnig í sendinefndinni Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís, Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands. Þá verður Stefán Skjaldarson sendiherra Íslands í Kína einnig í sendinefndinni ásamt fleiri starfsmönnum sendiráðsins.
Dagskrá ráðherrans lýkur fimmtudaginn 26. mars og heimferð ráðgerð daginn eftir.