Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kom á fund atvinnuveganefndar í morgun ásamt fulltrúum Matorku og sat fyrir svörum vegna fjárfestingarsamnings við eldisfyrirtækið.
„Hún var kölluð á fundinn til að útskýra pólitíska aðkomu sína að þessum samningi sem hún gerði. Eins kom fyrirtækið sjálft, skýrði sína stöðu og gerði það með prýði,“ sagði Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar og nefndarmaður í atvinnuveganefnd, í samtali við mbl.is eftir fundinn.
Aðspurð um svör Ragnheiðar Elínar og fyrirtækisins á fundinum segist Björt ekki hafa neitt út á fyrirtækið sjálft að setja. Hún segir fundinn hafa verið árangursríkan að því leyti að ráðherra hafi mætt en nefndin hafði áður ítrekað reynt að fá hana á fundinn. Hugsanlega þurfi að skoða endurskoða rammalöggjöf um ívilnanir á Íslandi í tengslum við þetta mál.
„Ég hef út á þetta fyrirkomulag sem Ragnheiður Elín leggur upp með, ívilnanir yfir höfuð. Eins og bersýnilega kemur fram í þessu tilfelli er það til þess fallið að skekkja samkeppnisstöðu og þetta er inngrip á markað sem áður var alveg frjáls. Önnur fyrirtæki hefðu komið þannig inn á markaðinn og nú á þetta fyrirtæki að fá sérstaka ívilnun frá ríkissjóði, þetta er mjög mikið inngrip á markaðinn,“ segir Björt.
Fréttir mbl.is um málið:
Segist ekki hafa farið með rangt mál