Selja vændi í gegnum Facebook

Hátt í 2.000 manns eru meðlimir í lokuðum hópum á …
Hátt í 2.000 manns eru meðlimir í lokuðum hópum á Facebook þar sem vændissala fer fram. mbl.is/Golli

Á annað þúsund manns eru meðlimir í tveimur lokuðum hópum á Facebook þar sem kynlíf er boðið gegn gjaldi, auk þess sem fólk óskar eftir því að kaupa vændi á síðunum.

Annar hópurinn var stofnaður í desember sl. og gengur aðeins út á kynlíf. Í lýsingu á hópnum segir að hann sé fyrir alla þá sem leiti sér að kynlífi, og eru leiðindi afþökkuð. Hinn hópurinn er hins vegar fyrir alla sölu að næturlagi, og er kynlíf þar á meðal. Þá eru einnig seld ólögleg stinningarlyf í gegnum síðurnar.

Meðlimir hópsins virðast vera á öllum aldri, og jafnvel niður í grunnskólaaldur.

Í öðrum hópnum er bæði boðið vændi og óskað eftir …
Í öðrum hópnum er bæði boðið vændi og óskað eftir því. Skjáskot af Facebook

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is er lög­regl­an meðvituð um ólög­leg viðskipti á Face­book og eru slík mál sífellt í skoðun hjá embættinu. Nokkur ár eru síðan lögreglan fór í átak gagngert gegn málum af þessu tagi, og af því leiddu nokkur dómsmál þar sem kaupendur voru ákærðir. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er óvíst hvert umfang vændissölu á samfélagsmiðlum er.

Fólk leitar einnig upplýsinga um hvernig það geti nálgast vændi …
Fólk leitar einnig upplýsinga um hvernig það geti nálgast vændi á hópunum. Skjáskot af Facebook

„Við könnumst ágætlega við þetta og erum að reyna að fylgjast með þessu,“ segir Halldóra Halldórsdóttir, starfskona hjá Stígamótum. Hún segir erfitt að meta hvert umfangið er þar sem skjólstæðingar Stígamóta tali yfirleitt ekki um vændi í fyrstu viðtölunum, en oft komi það upp þegar trausti hefur verið náð við ráðgjafann.

Halldóra segir vændi og klám komast alls staðar inn þar sem gáttir opnist, og með auknu framboði vettvangs á netinu aukist umfangið og eftirspurnin eftir því. Bendir hún á að þekkt sé að þeir sem hafi lent í kynferðisofbeldi og/eða leiðst út í neyslu stundi vændi. „Þegar búið er að eyðileggja mörkin fyrir ungu fólki þá er svo lítil mótstaða. Það þarf að byggja hana upp aftur og það er meðal annars það sem við stuðlum að í þeirri sjálfsvinnu sem fer fram hér í einstaklingsviðtölum og hópum.“

Ólögleg stinningarlyf eru seld á Facebooksíðunum.
Ólögleg stinningarlyf eru seld á Facebooksíðunum. Skjáskot af Facebook

Árið 2014 leituðu 8 einstaklingar, þar af einn karl og sjö konur, til Stígamóta í fyrsta skipti vegna vændis. Vitað er að árið 2014 voru einnig í viðtölum meðal annars vegna vændis um 10 einstaklingar, þar af níu konur og einn karl, sem leituðu í fyrsta skipti til Stígamóta fyrir árið 2014.

„Það sama hefur sýnt sig hjá Stígamótum og hjá erlendum systursamtökum að það tekur langan tíma að vinna úr þeirri ofbeldisreynslu sem vændi er. Mikilvægt er að hafa í huga við túlkun niðurstaðna að vændi er oft falið vandamál og oft koma upplýsingarnar um það ekki í ljós fyrr en eftir margra mánaða viðtöl. Skráningar fara hins vegar fram eftir fyrstu viðtöl og upplýsingar um það vantar því í einhverjum tilvikum,“ segir í ársskýrslu Stígamóta.

Eins og sumum er í fersku minni gerðist það árið 2011 að 85 konur tóku sig saman um að kanna vændismarkaðinn og safna saman nöfnum vændiskaupenda. Þær afhentu lögreglunni 56 nöfn vændiskaupenda, 117 farsímanúmer og 26 netföng eftir að hafa kannað einkamálageirann. Halldóra segir það sama ekki hafa verið gert með Facebook, „en ég get alveg ímyndað mér að það sé alveg jafn mikið eða meira umfang þar,“ segir hún.

Skjáskot af Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert