Guðrún Guðmundsdóttir, aðstoðarskólastjóri Seljaskóla, segir að ákveðið hafi verið að nemendur fengju ekki að halda eftir sólmyrkvagleraugunum sem skólinn fékk að gjöf frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.
Hún segir sólmyrkvagleraugun hafa verið gjöf Stjörnuskoðunarfélagsins til skólans og var það mat skólastjórnenda að gleraugun geti komið að góðum notum við kennslu í framtíðinni.
Frétt mbl.is: Reykvísk börn fá líka gleraugu
Ákvörðunin var ekki tekin í samráði við Stjörnuskoðunarfélagið, segir Guðrún þar sem litið hafi verið á sólmyrkvagleraugun sem gjöf til skólanna og því væri það skólunum í sjálfvald sett hvernig þeir kysu að ráðstafa gjöfinni. „Þetta er það gott kennslutæki að við töldum það betra að eiga þetta hér í skólanum. Það er heilmikill kostnaður í þessum búnaði og við töldum að fyrir okkar nemendur væri þetta best,“ segir Guðrún.
Um 600 nemendur eru í Seljaskóla og fóru þeir allir í fylgd starfsmanna í morgun að fylgjast með sólmyrkvanum. Yngstu börnin höfðu takmarkaðan skilning á því hvað um var að vera en hún segir þetta hafa tekist mjög vel.
„Allir fóru út og voru í umsjón starfsmanna á meðan á þessu stóð. Þetta var vel undirbúið, það var farið yfir mikilvægi þess að horfa ekki í sólina án gleraugna og það gekk mjög vel,“ segir Guðrún en nemendur skólans fengu fræðslu um afhverju sólmyrkvi gerðist, áður en haldið var út að fylgjast með sólmyrkvanum með berum augum, að vísu í gegnum sólmyrkvagleraugun.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, sagði í samtali við RÚV fyrr í dag að sólmyrkvagleraugun væru gjöf frá Stjörnuskoðunarfélaginu til krakkanna en ekki til skólanna.
„Það er hvatning frá skóla- og frístundasviði í Reykjavík um að krakkarnir skili gleraugunum til skólanna. En ég ætla að taka mér það bessaleyfi að óska eftir því við skólastjórana að þeir taki þá ákvörðun sjálfir að gefa krökkunum gleraugun,“sagði Sævar í samtali við RÚV.