Fyrirtækið Já hefur að undanförnu fengið fjölda kvartana og ábendinga frá sínum viðskiptavinum vegna reikninga í einkabanka og greiðsluseðla fyrir þjónustu sem þeir töldu sig ekki hafa stofnað til.
Í einhverjum tilvikum hafa reikningarnir farið í innheimtu og fólk fengið sendar viðvaranir frá Fjárvakri. Neytendasamtökin hafa einnig fengið ábendingar útaf þessu.
Við eftirgrennslan Morgunblaðsins hjá Já kemur í ljós að í langflestum tilvikum er um að ræða rukkun á árgjaldi fyrir viðbótarskráningu á Já.is, líkt og fyrir aukalínu í símaskránni. Fram að síðustu áramótum fengu símnotendur rukkun fyrir þessu í símreikningum Símans en frá 1. janúar sl. ákvað Já að beina viðskiptum sínum til Fjárvakurs, sem sér um innheimtu og móttöku greiðslna fyrir fyrirtækið.