Píratar fengu 29,1% fylgi ef kosið væri til Alþingis nú samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt er í dag. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með næstmest fylgi eða 23,4% og Samfylkingin er í þriðja sæti með 16,3%.
Framsóknarflokkurinn mælist með fjórða mesta fylgið eða 11,6%. Næst í röðinni koma Björt framtíð og Vinstrihreyfingin - grænt framboð með 9% hvor flokkur. Fram kemur í frétt Fréttablaðsins að svo virðist sem útspil ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum hafi ekki haft úrslitaáhrif á þróun mála í ljósi þess að þeir flokkar sem hlynntir eru aðild að Evrópusambandinu, Samfylkingin og Björt framtíð, standa nokkurn veginn í stað frá síðustu könnun.