Framboðið var misráðið

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mbl.is/Rósa Braga

„Hvernig svo sem framboð Sigríðar Ingibjargar er tilkomið var það misráðið því það gat aldrei farið öðru vísi en illa eða annað tveggja - skilað löskuðum formanni eða formanni með mjög óljóst umboð,“ skrifar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar á Facebook.

Ingibjörg Sólrún segist vera hugsi yfir stöðunni í Samfylkingunni eins og hún birtist henni í umræðunni á íslensku samfélagsmiðlunum.

„Ég þekki vel bæði Árna Pál og Sigríði Ingibjörgu og hef átt með þeim langa samleið í stjórnmálum. Þau eru ekki klækjastjórnmálamenn og þess vegna rennur mér til rifja að sjá þau í aðalhlutverkum í þeim darraðardansi sem fram fór um helgina á landsfundi Samfylkingarinnar.

Það er ekkert athugavert við það að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni en Samfylkingin hefur mótað sér ákveðnar reglur um hvernig formannskjör eigi að fara fram og það er mjög mikilvægt að þær reglur séu virtar en ekki reynt að nýta glufu í regluverkinu til að steypa sitjandi formanni.

Formaður verður að hafa skýrt umboð frá flokknum. Árni fékk þetta umboð þegar 3,474 flokksmenn greiddu honum atkvæði sitt í allsherjaratkvæðagreiðslu innan flokksins í ársbyrjun 2013. Í formannskjörinu á landsfundinum í gær tóku þátt 487 flokksmenn og Árni Páll vann sigur með eins atkvæðis mun. Setjum sem svo að þetta hefði farið á hinn veginn og Sigríður Ingibjörg hefði verið kosin formaður með 241 atkvæði. Í hvaða stöðu hefði það sett hana sem formann? Í hvaða stöðu hefði hún verið gagnvart öllum þeim flokksmönnum sem kusu Árna Pál í lýðræðislegri kosningu fyrir rúmum tveimur árum?

Hvernig svo sem framboð Sigríðar Ingibjargar er tilkomið var það misráðið því það gat aldrei farið öðru vísi en illa eða annað tveggja - skilað löskuðum formanni eða formanni með mjög óljóst umboð.

Ýmsir félagar mínir í Samfylkingunni hafa fært fram þau rök að formlega hafi ekki verið neitt rangt við formannsframboð á síðustu stundu. Reglur banni það ekki. Það er í sjálfu sér rétt en mér finnst það mjög miður ef það er orðin viðtekin skoðun í Samfylkingunni að lýðræðið sé fyrst og fremst form en ekki ferli sem byggist á umræðu. Með því að stytta sér leið með þessum hætti á landsfundi var verið að hafa þá umræðu af flokksmönnum, sem þeir eiga lýðræðislegan rétt á samkvæmt reglum flokksins.

Að lokum legg ég til að flokksmenn blaði í heftinu „Mín eigin orð“ sem kom út 31. desember s.l. Þar eru nokkrar greinar um lýðræði.“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Árni Páll Árnason
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Árni Páll Árnason mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka