Þurfa ekki að strengja guði heit

Á Skátaþingi, sem stendur nú yfir á Selfossi, var rétt í þessu samþykkt tillaga um að breyta orðalagi skátaheitisins. Er nú valkvætt hvort tilvonandi skátar strengi guði heit eða samvisku sinni. Einnig er nú valkvætt hvort notast sé við orðið ættjörð eða samfélag. 

Hingað til hefur drengskaparheitið hljóðað svo:

Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess; að gera skyldu mína við guð og ættjörðina, að hjálpa öðrum og að halda skátalögin.

Með samþykktri breytingu er nú valkvætt hvort sagt er orðið guð eða samvisku, og orðið ættjörð eða samfélag

Var tillagan samþykkt með um það bil 70% atkvæða.

Arnór Bjarki Svarfdal er einn af þeim sem hafa unnið að tillögunni en aðdragandi hennar er langur. Áður hafa komið fram tillögur að breytingu á heitinu, en ekki hafa þær verið samþykktar. Þá hafa í aðdraganda tillögunnar verið gerðar skoðanakannanir til þess að finna rétta orðalagið.

„Markmið var að færa skátana meira inn í nútímann og opna fyrir alla hvort sem þeir trúa á guð eða ekki eða hvaða guð þeir trúa á. Breytingin er varðar orðið ættjörð eða samfélag snýr að því að okkur finnst orðið samfélag hafa breiðari skírskotnun,“ segir Arnór. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert