Samtökin '78 stækka regnhlífina

Nýkjörna stjórn skipa frá vinstri: Hilmar Hildarson Magnúsarson, Aldís Þorbjörg …
Nýkjörna stjórn skipa frá vinstri: Hilmar Hildarson Magnúsarson, Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, Kitty Anderson, Steina Dögg Vigfúsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Jósef S. Gunnarsson. Á myndina vantar Matthew Deaves. Mynd/Gayice.is - Frosti Jónsson

Hilmar Hildarson Magnúsarson var í gær endurkjörinn formaður Samtakanna 78 á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Kex Hosteli. María Rut Kristinsdóttir var kjörin varaformaður. 

Á fundinn mættu 35 manns og voru samþykktar nokkrar lagabreytingar. Fyrir fundinum lá tillaga um að viðurkenna intersex fólk sem formlegan hluta félagsins. Í umræðum kom fram tillaga um að víkka þetta enn frekar út og bæta asexual fólki og pankynhneigðum inn í upptalninguna. Samtökin '78 berjast því nú formlega í dag fyrir réttindum lesbía, homma, tvíkynhneigðra, asexual fólks, pankynhneigðra, intersex fólk og transfólk - undir merkjum hinsegin fólks.

Í stjórn samtakanna, ásamt þeim Hilmari og Maríu, voru kjörin þau Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, alþjóðafulltrúi, Kitty Anderson meðstjórnandi, Matthew Deaves, meðstjórnandi, Steina Dögg Vigfúsdóttir, gjaldkeri og Jósef S. Gunnarsson, ritari. 

„Það ríkti mikil eindrægni og samstaða á fundinum og ég fagna því sérstaklega að við skyldum samþykkja einróma að stækka hinsegin regnhlífina formlega. Þessi ákvörðun staðfestir hugrekki, framsýni og víðsýni félaga okkar og er jafnframt tímabær,“ segir Hilmar í tilkynningu til fjölmiðla. 

„Við höfum unnið að því undanfarið að bjóða alla hópa hinsegin fólks velkomna í okkar samfélag og baráttu. Það hefur verið mikil gerjun í hinsegin samfélaginu og nú formgerum við þessa stefnu og sýnum að okkur er full alvara með þetta. Samtökin eru hér að slá ákveðinn tón í alþjóðlegri mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Skilaboðin eru skýr: barátta okkar er sameiginlegt verkefni okkar allra.“

Sjá heimasíðu félagsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka