Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir fullyrðingar um að sjá megi fingraför hennar á formannsframboði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur vera sögufölsun og samsæriskenningar.
Á Facebook-síðu sinni deilir hún stöðuuppfærslu eiginkonu sinnar, Jónínu Leósdóttur, þar sem Jónína segist hafa séð frétt um framboð Sigríðar klukkan 18.55 á miðvikudag, og látið Jóhönnu vita í kjölfarið. Jóhanna hafi orðið steinhissa þegar hún frétti af því.
Nokkrir viðmælendur Morgunblaðsins í gær sögðu við blaðamann að framboðið hefði ekki komið á óvart og ekki heldur hin síðbúna tímasetning á því að tilkynna framboðið. Segja þeir augljós fingraför Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, vera á framboði Sigríðar Ingibjargar.