Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sé góður félagi og þau eigi auðvelt með að vinna saman.
Hann segir að hann meti það mjög við hana að hún tali um að formannskjörið muni ekki breyta neinu um þeirra samstarf.
Að sögn Árna er engin ástæða til annars en að horfa fram á veginn, niðurstaðan liggi fyrir og sé ljós.
Þetta kom fram í máli Árna Páls í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Þar sagðist hann telja að niðurstöður skoðanakannana að undanförnu sýndu að fólk vildi sjá breytingar í stjórnmálum. Það væri jákvætt að sjá þróunina hér og hún sé í allt aðra átt en víða annars staðar í Evrópu þar sem fylgið er að færast til þjóðernisflokka. Píratar séu langt þar frá.
Honum finnist heldur ekki slæmt að sjá Pírata taka fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Árni Páll segir að hann muni taka það til sín að Samfylkingin þurfi að tala skýrar og koma sjónarmiðum sínum betur á framfæri.
Árni Páll útilokar ekkert þegar kemur að sameiningu stjórnarandstöðuflokkanna og segir að ef menn vilja skoða breytingar þá sé alveg hægt að skoða það. Hann segir samstarfið við Bjarta framtíð, Pírata og Vinstri græna vera mjög gott.