Þrennt var flutt á slysadeild eftir mjög harðan árekstur á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar um hálftíuleytið í morgun. Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu voru meiðsl þeirra ekki mjög alvarleg þrátt fyrir að áreksturinn hefði verið mjög harður.
Báðir ökumenn bifreiðanna voru fluttir á Landspítalann með sjúkrabifreið auk eins farþega.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var mikið brak á gatnamótunum eftir áreksturinn. Kalla þurfti til hreinsunardeild borgarinnar til að þrífa gatnamótin og tæknimenn til að huga að umferðarvita sem skemmst hafði. Jafnframt þurfti kranabifreiðar til að koma bílflökunum á brott.
Klukkan rúmlega tíu í morgun var síðan ekið á umferðarljós við Álfheima. Þar munu ekki hafa verið meiðsl á fólki. Um áttaleytið hafnaði fólksbifreið á stórum steini við Hrísmóa en engin slys urðu á fólki þar.